Skip to main content

Krabbamein fer ekki í frí

By 27. júní 2019mars 25th, 2024Fréttir

Krabbamein fer ekki í frí er vitundarvakning Krafts sem snýr að því að vekja athygli á því að þótt fólk fari í sumarfrí þá fer krabbamein ekki í frí. Oft getur verið minni starfsemi og þjónusta yfir sumartímann í heilbrigðisgeiranum og kvartar fólk oft undan takmarkaðri þjónustu.

Vitundarvakning Krafts er tvenns konar. Annars vegar mun Kraftur auglýsa opnunartíma hinna ýmsu þjónustuaðila fyrir fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur. Kynningarefni verður dreift á heilbrigðisstofnanir og víðar í byrjun júlí þar sem opnunartímar og lokanir eru auglýstir. Við gerum okkur grein fyrir að krabbamein fer ekki í frí og því viljum við vekja athygli á opnunartímunum svo að fólk viti hvert það getur leitað. „Okkar félagsmenn hafa oft talað um hægari og óskilvirkari þjónustu yfir sumartímann hjá heilbrigðisstofnunum. Við gerum okkur öll grein fyrir því og þurfum líka að sýna skilning að heilbrigðisstarfsfólk þarf líka að fara í sumarfrí og að sami fjöldi sjúklinga og verkefna fer þá á hendur færri. Oft getur reynst erfitt að fá fólk í afleysingar þar sem um sérhæfða menntun er að ræða. Okkur fannst því skipta máli að vekja máls á þessu en einnig sýna fram á þá þjónustu sem er í boði yfir sumartímann og hvert sé hægt að leita,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Kraftur mun einnig standa fyrir skemmtilegum viðburðum á hverjum miðvikudegi í júlí líka undir yfirskriftinni Krabbamein fer ekki í frí. Þessir viðburðir eru fyrir félagsmenn Krafts sem eru bæði einstaklingar sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur og er þar megin markmiðið að koma saman, njóta útivistar og líðandi stundar Kraftur verður með opið alla virka daga nema föstudag í júlí þar sem hægt er að sækja stuðning og þjónustu.

Viðburðirnir Krabbamein fer ekki í frí eru auglýstir á vefsíðu Krafts undir https://kraftur.org/vidburdir/ sem og á Facebook síðu félagsins https://www.facebook.com/kraftur.org/.

Á plakatinu hér fyrir neðan má sjá opnunartíma og frekari upplýsingar hjá hinum ýmsu þjónustuaðilum fyrir fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur. Við hvetjum fólk til að nýta sér þá þjónustu sem er í boði því það er fullt af góðu fólki sem er á vaktinni.