Skip to main content

Trausti

Ég heiti Trausti Thorberg og er 37 ára heilsunuddari hjá Bláa Lóninu samhliða því að vera með eigin nuddstofu. Konan mín, Kristín Erla, greindist með brjóstakrabbamein árið 2010 og tveimur árum síðar greindist hún með meinvörp í lunga.

Fyrst þegar hún greindist þá varð ég frekar einangraður og datt í vægt þunglyndi en hún var dugleg og hafði nóg fyrir stafni til að dreifa huganum. Ég hins vegar áttaði mig ekki alveg á því að ég þyrfti á því að halda að ræða hvernig mér liði og ákvað að fara þetta á hnefanum. Oft á tíðum skyldi ég ekki af hverju hún var að leitast svona mikið eftir því að hitta fólk í sömu sporum. Eftir meðferðina var þetta tímabil fyrir mér bara búið. Svo þegar hún greinist í seinna skiptið þá var ég tilbúnari til að ræða hlutina og hafði gott fólk í kringum við sem ég gat talað við og opnað mig. En það var ekki fyrr en þarsíðasta haust þegar við fórum með félagsmönnum í ferð á vegum Krafts að ég hitti aðra maka sem voru eða höfðu verið í sömu sporum. Þá algjörlega fattaði ég hvað Kristín var að tala um, hversu mikilvægt það er að hitta fólk sem hefur gengið í gegnum sömu reynslu. Þarna voru einstaklingar sem voru upplifa sömu tilfinningar og ég hafði verið að upplifa. Því segi ég: EKKI FARA ÞETTA Á HNEFANUM.

Deildu þinni reynslu og þinni mynd því krabbamein kemur öllum við eða deildu minni mynd og sögu #deilduþinnireynslu #krabbameinkemuröllumvið #lífiðernúna