Skip to main content

Sóli Hólm

Ég heiti Sólmundur Hólm, er 34 ára og starfa hjá Ríkissjónvarpinu. Ég greindist með Hodgkins eitilfrumukrabbamein í sumar. Ég fór strax í lyfjameðferð og frétti í lok nóvember að ég væri laus við krabbameinið. Ég bið fólk virkilega um eitt: ALDREI HORFA Á KRABBAMEINSSJÚKLING EINS OG HANN SÉ AÐ DEYJA. Fólk horfði svo oft á mig eins og ég væri svo miklu veikari en ég var og ég veit að það var ekkert nema góður hugur á bakvið það. Það er samt óþægilegt. Mér þótti alltaf þægilegra þegar fólk spurði mig bara hreint út: Hvernig er þetta, hvernig hefurðu það? Þá átti ég auðvelt að svara því mér fannst aldrei óþægilegt að tala um krabbameinið mitt. Ef sá greindi vill ekki tala um það þá er líka allt í lagi að hann segi bara: „Heyrðu mér finnst óþægilegt að tala um það.” En þú skalt frekar spyrja og fá það svar heldur en að tipla á tánum og tala í kringum hlutina. Ekki láta augun og svipbrigði þín segja: „Æ, aumingja þú. Elsku greyið mitt.“ Það vill enginn vera grey.

Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að leggja málefninu lið með fjármagni eða með því að deila sinni reynslu því það er ótrúlega mikið af ungu fólki sem fær krabbamein. Ég er sjálfur í sterkum fimm manna æskuvinahópi og samkvæmt líkum þá átti alltaf einn af okkur eftir að fá krabbamein. Áður velti ég stundum fyrir mér: „Hver af þeim á eftir að fá þetta?“ Ég gerði aldrei ráð fyrir að það yrði ég.

Deildu þinni reynslu og þinni mynd því krabbamein kemur öllum við eða deildu minni mynd og sögu #deilduþinnireynslu #krabbameinkemuröllumvið #lífiðernúna