Skip to main content

Guðrún Jóna

Ég heiti Guðrún Jóna Sæmundsdóttir og er 57 ára og rek fyrirtækið Geislatækni ásamt manninum mínum. Ég missti son minn Sigurð Jón úr heilakrabbameini í janúar árið 2016. Ég segi GERUM MEÐAN VIÐ ERUM því þannig tókumst við á við veikindin hans. Við vissum að hann fengi ekki langt líf og því vildum við gera góða og skemmtilega hluti á meðan við vorum saman. Við vissum að þetta væri ólæknandi og erfitt krabbamein og það tók hann á einungis tveimur árum en hann var 31 árs gamall þegar hann lést. Siggi Jón greindist í desember 2013, fjórum dögum síðar fór hann í sína fyrstu heilaskurðaðgerð og var það markmið læknana að koma honum til Tenerife með okkur sem varð að veruleika og eyddum við jólunum þar. Hann hafði líka verið lengi á sjó í Vestmannaeyjum en hætti á sjó árið 2010 og fór þá í viðskiptafræði á Bifröst. En sjórinn heillaði hann alltaf og eftir að hann greindist var t.d. markmið hans að fara á Sjómannadaginn í Vestmannaeyjum og á Þjóðhátíð sem við og gerðum. Á meðan á veikindunum stóð ferðuðumst við mikið til að skapa minningar og gera hlutina saman á meðan við gátum og eru þessar minningar fjársjóðurinn okkar.

Deildu þinni reynslu og þinni mynd því krabbamein kemur öllum við eða deildu minni mynd og sögu #deilduþinnireynslu #krabbameinkemuröllumvið #lífiðernúna