Beint á efni síðunnar
Hafa samband

Taktu þátt í #shareyourscar

Krabbamein er ekki tabú og kemur öllum við. Kraftur fékk tíu unga einstaklinga í lið með sér til að deila örum sínum sem þeir hafa hlotið vegna krabbameinsmeðferðar.Þessir hugrökku einstaklingar eru þeir fyrstu sem stíga fram og opinbera örin sem þeir hafa fengið vegna krabbameins. Kraftur vill vekja almenna athygli á krabbameini en sér í lagi á krabbameini hjá ungu fólki en um 70 einstaklingar á aldrinum 18-40 ára greinast með krabbamein á hverju ári. 


Það er mikilvægt að fólk sé ekki feimið að tala um krabbamein heldur þori að stíga fram og deila sínu öri og sinni sögu. Ör eru ekkert til að skammast sín fyrir, þau eru okkar sigrar!
  

Allir geta tekið þátt. Hvort sem þú hefur greinst með krabbamein eða ekki. Ef þú ert með ör, hvort sem þú hefur fengið krabbamein eður ei, deildu því þá ertu að vekja athygli á ungu fólki og krabbameini.

 

Taktu þátt í #shareyourscar og deildu þínu öri eða einni af myndunum hér að neðan. 

 

Breyttu líka prófilmyndinni þinni á Facebook og Twitter hér

(þér verður þar vísað inn á Twibbon síðu, þar sem þú færð filter og svo þegar hann er kominn á kemur möguleikinn að breyta forsíðunni myndinni þinni)

  Hver dagur er sigur

  Ég heiti Bjarki og er 28 ára gamall. Þegar ég var 25 ára og spilaði með meistaraflokki HK í fótbolta greindist ég með ristilkrabbamein. Ég var einkennalítill en á örfáum dögum lokaði æxlið ristlinum og ég fékk mikla verki. Við myndatöku fannst æxli sem var skorið burt. Læknar telja að krabbameinið hafi verið að ágerast í 10-15 ár. Síðan þá hef ég farið í 5 aðgerðir á ristli, lungum og heila, 2 lyfjameðferðir og 14 mánaða sterameðferð sem ég er að ljúka núna. Ég hef farið úr 85 kg niður í 67 kg og vel yfir 100 kg út af sterameðferðinni en hún lætur líkamann blása út eins og sést vel á myndinni minni. Ég er með ör á kvið, handleggjum, síðu og höfði. Ég er enn að takast á við veikindin, hver dagur fyrir mér er sigur. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar 

  Ég lifi!

  Hæ, ég heiti Hulda. Ég var 15 ára og að byrja í 10. bekk í grunnskóla þegar ég greinist með bráðahvítblæði. Ég var mikið í íþróttum og spilaði handbolta en á nokkrum vikum var ég orðin þróttlítil, með verki í liðum, marbletti víðsvegar um líkamann og svaf allan daginn. Eftir að ég var send í blóðprufu kom í ljós að ekki var allt með felldu og ég send upp á spítala til frekari skoðunar. Þar var mér tilkynnt að ég væri með bráðahvítblæði og í kjölfarið þurfti ég að gangast undir sex mánaða lyfjameðferð ásamt því að fara í uppskurð til að koma fyrir lyfjabrunni. Það kom sýking í brunninn og þurfti að fjarlægja hann og koma lyfjalegg fyrir í stað hans. Ég er með ör á bringunni. Ég er þakklát fyrir að vera á lífi. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar.

  Jákvæðni er besta meðalið

  Ég heiti Sandra og var 18 ára þegar ég greindist með beinkrabbamein í viðbeini. Ég var búin að vera með verki í 2 ár og kúla búin að myndast á annarri öxlinni á mér. Ég fór fyrst í lyfjameðferð til að minnka æxlið svo hægt væri að fjarlægja það og nokkrum mánuðum síðar fór ég í aðgerð. Lyfjameðferðin hélt síðan áfram ásamt geislameðferð og stofnfrumubjörgun. Ég lauk meðferð fyrir ári síðan en er með ör á viðbeini og bringunni. Það bætir ekkert að lifa í einhverju volæði, jákvæðnin er mjög mikilvæg. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar.

  Örin eru mínir sigrar

  Ég heiti Rósa og er íþróttafræðingur, heilsunuddari og grunnskólakennari. Ég var 41 árs þegar ég greindist með illvígt ristil- og endaþarmskrabbamein sem var búið að dreifa sér í legháls og kviðarhol. Frá því 2009 hef ég farið í fjórar aðgerðir og ekki getað unnið eftir veikindin. Í dag þarf ég að notast við þvaglegg heima við því þvagrásin brann illa í geislum. Illa hefur gengið að aðlagast stómanum og einnig er ég með taugaskemmdir eftir lyfjameðferðirnar. Það er ótrúlegt að ég sé á lífi en í gegnum veikindin var sigur mér alltaf efst í huga. Ég er með stóma og ör á bringunni. Örin mín eru ekki neitt til að skammast sín fyrir þau eru mínir sigrar. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar.

  Ég er með ör en ég lifði af

  Hæ, ég heiti Jenný. Ég var tvítug þegar ég greindist með beinkrabbamein í rifbeini. Ég var búin að finna til í baki í nokkra mánuði svo kom í ljós í myndatöku að æxli var að vaxa út frá rifbeini. Ég byrjaði á því að fara í fjórar háskammta lyfjameðferð og seinna í aðgerð þar sem æxlið var fjarlægt ásamt rifbeinum. Eftir aðgerðina fór ég í 9 lyfjagjafir og kláraði meðferðina ári síðar. Ég fer reglulega í skoðanir enn í dag. Ég varð ólétt 6 mánuðum eftir að ég lauk meðferð sem er kraftaverk. Ég er þakklát fyrir heilsuna og tek öllum vandamálum sem verkefnum til að leysa - ég er með ör en ég lifði af. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar.

  Fagnaðu litlu sigrunum

  Ég heiti Matthías og er kallaður Matti. Þegar ég ar 15 ára greindist ég með beinkrabbamein í fæti en þá var ég búinn að finna til í fætinum í 4 ár. Læknar héldu að þetta væru vaxtarverkir. Seinna kom í ljós að stórt æxli var í fætinum sem var búið að vaxa allan þennan tíma. Lyfjameðferð tók við í 9 mánuði ásamt uppskurði erlendis og þá var skipt um hné fyrir utan hnéskel og ég fékk gervilið. Ég þurfti að hætta í fótbolta sem var mjög erfitt fyrir mig enda ungur og fullur af orku. Í dag er ég 24 ára og pabbi. Ég er laus við krabbameinið í dag. Það sem kom mér í gegnum veikindin var að fagna litlu sigrunum. Ég er með ör á fæti og hef deilt mínu öri. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar.

  Hverju öri fylgir saga

  Hæ, ég heiti Kiddi. Ég var 25 ára þegar ég greindist fyrst með heilaæxli. Í dag er ég 34 ára, þriggja barna faðir og er enn að berjast. Þegar ég greindist fyrst árið 2006 var ég með heilaæxli við gagnauga á við lítið epli. Ég var þá skorinn upp og læknarnir tjáðu mér að ég ætti bara 5 ár eftir. Ég greindist svo aftur árið 2015 með æxli á stærð við tyggjókúlu, það var tekið með skurðaðgerð og lyfjameðferð tók við. Þetta er komið á 3. stig og spurning því hversu langt ég á nú eftir. Lífið er mislangt hjá fólki, sumir fá langt líf á meðan aðrir lifa stutt. En það sem skiptir mestu máli er hvernig þú nýtir lífið og hvað þú gerir við tímann þinn. Ég er með ör á höfði og þau eru mín saga. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar

  Aldrei gefast upp

  Ég heiti Elma Lísa og er 18 ára gömul. Þegar ég var 13 ára greindist ég með krabbamein í rifbeini og hrygg. Ég var búin að vera bakveik í tvö ár en ekkert fannst að mér þrátt fyrir skoðanir og myndatökur. Ég var sett á svefnlyf því ég gat ekki sofið á nóttunni fyrir verkjum. Ég var svo komin með dofa í fæturnar, þá var ég sett í segulómun og þá fannst æxli í mænunni. Ég fór til Kanada í aðgerð þar sem hitt krabbameinið fannst líka. Ég fór í lyfjameðferð eftir aðgerð í nokkra mánuði og er laus við krabbameinið í dag. Það sem mér fannst skipta mestu máli í veikindum mínum var að gefast aldrei upp. Ég er með ör á bakinu en ég lifði. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar

  Krabbamein er ekki dauðadómur

  Ég heiti Ingveldur. Ég var ólétt og 37 ára gömul þegar ég greindist með brjóstakrabbamein. Ég var komin fjóra mánuði á leið þegar ég fann hnút í brjóstinu. Hann stækkaði frekar hratt og mikið og því leitaði ég til læknis. Við greiningu fannst 5cm æxli í brjóstinu sem var illkynja krabbamein. Ég fór beint í aðgerð og brjóstið tekið ásamt 14 eitlum. Það fannst dreifing í einum eitil og hóf ég 4 mánaða lyfjameðferð stuttu seinna. Ég tók mér svo hlé til að fæða barnið mitt og 2 vikum seinna fór ég í gegnum seinni hluta lyfjameðferðarinnar. Ég missti annað brjóstið og gat ekki farið í uppbyggingu því ég var ólétt. Ég hef deilt mínu öri því krabbamein er ekki dauðadómur. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar

  Þetta var mín leið til að lifa af

  Ég heiti Berglind, ég var 13 ára þegar ég greindist með beinkrabbamein í lærlegg. Ég var búin að finna til lengi og var bólgin, ég æfði ballett og voru verkirnir því tengdir við það. Ég fór oft uppá bráðamóttöku með mikla verki en var send heim með íbúfen en fékk svo loks greiningu þegar fóturinn gaf sig algjörlega. Ég hóf strax 6 háskammta lyfjameðferð og var tjáð að ég myndi halda fætinum. Viku fyrir aðgerð fékk ég að vita að það væri ekki hægt að bjarga fætinum. Það var mikið áfall. Ég er með gervifót í dag. Þetta hefur heft mig mikið félagslega en ég er stolt af því að koma til dyranna eins og ég er. Að láta taka fótinn var mín leið til að lifa af. Krabbamein kemur öllum við og er ekki tabú. Deildu þínu öri eða myndinni minni og taktu þannig þátt í #shareyourscar