1. gr. Nafn og staða

Félagið heitir „Kraftur, stuðningsfélag“ og er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Félagið starfar á landsvísu sem sjálfstætt áhugamannafélag og er aðili að Krabbameinsfélagi Íslands. Heimili og varnarþing Krafts er í Reykjavík. Kraftur er félag til almannaheilla og starfar skv. lögum 110/2021.

2.gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna og stuðla að velferð ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda. Þessum tilgangi hyggst félagið ná með því að:

1. Stuðla að því að krabbameinsgreindir einstaklingar svo og aðstandendur fái aðhlynningu og andlegan og félagslegan stuðning.

2. Miðla upplýsingum um réttindi krabbameinsgreindra og aðstandenda.

3. Aðstoða unga krabbameinsgreinda við að komast aftur út í lífið eftir meðferð og veita þeim upplýsingar um mögulega endurhæfingu og aðra þá aðstoð sem í boði er hverju sinni.

4. Miðla þeirri reynslu sem félagsmenn Krafts hafa öðlast í gegnum eigin veikindi eða upplifun aðstandenda.

5. Fræða almenning um hin ýmsu málefni sem snerta ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

3. gr. Félagsaðild

Fullgildir félagar eru þeir sem eru á aldrinum 18-40 ára og greinst hafa með krabbamein. Þeir geta verið fullgildir félagar til 45 ára aldurs. Aðstandendur krabbameinsgreindra, 18 ára og eldri, geta orðið félagar í Krafti sama á hvaða aldri hinn krabbameinsgreindi er.

Aðstandandi er einstaklingur sem á ástvin sem greinst hefur með krabbamein, hvort sem hann er með krabbamein, læknaður eða hefur látist af völdum krabbameins.

Félagar geta einnig verið þeir sem hafa áður fengið inngöngu í félagið  en uppfylla ekki lengur skilyrði þess að vera fullgildir félagar. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa skuldlausir félagar.

4. gr. Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda í apríl ár hvert. Skal hann boðaður með að minnsta kosti viku fyrirvara. Tilkynna skal dagskrá í fundarboði. Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Á aðalfundi skulu jafnan tekin fyrir þessi mál:

1. Skýrsla félagsstjórnar fyrir síðastliðið starfsár (frá síðasta aðalfundi).

2. Endurskoðaðir reikningar fyrir síðastliðið reikningsár lagðir fram til samþykktar.

3. Ákveðið árgjald.

4. Kosin stjórn, varastjórn og endurskoðendur og skoðunarenn reikninga úr hópi félagsmanna.

5. Lagabreytingar.

6. Önnur mál.

5. gr. Stjórn

Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum auk þriggja varamanna. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur, sem eru fjórir talsins, eru einnig kosnir til tveggja ára í senn en kosið er um tvo meðstjórnendur á hverju ári. Varamenn eru kosnir árlega til eins árs. Formaður má sitja tvö kjörtímabil samfellt og getur gefið kost á sér á ný eftir tvö ár. Einungis félagsmenn í Krafti geta gefið kost á sér til stjórnarsetu og formennsku í félaginu. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórn með sér verkum og velur varaformann, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Stjórnin skipar nefndir til starfa fyrir félagið.

6.gr. Stjórnarfundir

Stjórnarfundi skal halda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári og skulu þeir að jafnaði boðaðir með viku fyrirvara. Skylt er að boða stjórnarfund ef tveir stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef minnst þrír stjórnarmenn eða varamenn þeirra sækja fundinn. Í upphafi stjórnarfundar skal bera fundargerð síðasta fundar upp til samþykktar.

7. gr. Félagsfundir

Almenna félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins telur ástæðu til eða minnst einn fimmti hluti félagsmanna óskar þess. Skal boða til þeirra með sama hætti og til aðalfundar.

8. gr. Fjármál

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Prókúruhafi er gjaldkeri og formaður félagsins og/eða aðrir sem stjórn félagsins veitir slíkt umboð. Á aðalfundi skal kjósa, til eins árs í senn, löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til þess að annast endurskoðun á ársreikningi félagsins sem og skoðunarmenn reikninga úr hópi félagsmanna. Félagið er fjármagnað með styrkjum, greiddum félagsgjöldum og sölu á varningi. Stjórn félagsins skal sjá til þess að fjármunum félagsins sé ráðstafað á forsvaranlegan hátt í samræmi við tilgang félagsins.

9. gr. Fréttabréf

Félagið skal senda út fréttabréf til félagsmanna að minnsta kosti þrisvar á ári.

10. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Til þess þarf 3/4 greiddra atkvæða. Skal þess getið í fundarboði ef tillögur til lagabreytinga verða lagðar fram á fundinum. Aldrei má breyta lögunum þannig að raskað sé megintilgangi félagsins, sbr. 2. gr.

11. gr. Slit

Til þess að leggja félagið niður þarf samþykki 3/4 fundarmanna á aðalfundi, enda hafi áformum um félagsslit verið getið sérstaklega í fundarboði. Verði félagið lagt niður skal eignum þess varið til líknarfélaga eða ráðstafað á annan hátt til hagsbóta fyrir krabbameinssjúklinga, samkvæmt ákvörðun aðalfundar. Því ákvæði má aldrei breyta.