Sími: 866-9600 - Stuðningssími: 866-9618 - Netfang: kraftur@kraftur.org

Félagið

Stuðningsfélagið Kraftur var stofnað 1. október 1999 og hefur það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Félagið er fyrir fólk á aldrinum 18 – 40 ára en þar sem félagið er einnig fyrir aðstandendur er fólk á öllum aldri í félaginu. Félagið hefur aðstöðu hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands án endurgjalds og er KÍ einn helsti styrktaraðili Krafts en félagið er einn af stuðningshópum Krabbameinsfélagsins.

Megin markmið Krafts eru að styðja við ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur með því að halda úti jafningjastuðningi, hagsmunagæslu, öflugri fræðslu, samveru á jafningjagrunni, veita hagnýtar upplýsingar og stuðla að samvinnu félagasamtaka, heilbrigðisstarfsmanna og annarra sem koma að málefnum þeirra sem tengjast sjúkdómnum.

Starfsemi Krafts felst í því:

  • að veita andlegan og félagslegan stuðning við þá sem greinast og aðstandendur þess.
  • að gæta hagsmuna félagsmanna og standa vörð um réttindi þeirra gagnvart opinberum aðilum.
  • að halda úti öflugu stuðningsneti þar sem áhersla er lögð á jafningjastuðning byggðan á persónlegri reynslu.
  • að veita félagsmönnum sálfræðiþjónustu.
  • að reka Neyðarsjóð Krafts.
  • að standa fyrir útgáfu á árlegu fréttabréfi og fræðsluefni í formi bæklinga og bóka.
  • að halda reglulegar uppákomur í nafni félagsins t.a.m. kaffihúsakvöld, sumargrill, aðventukvöld og fleira.

Nánar:

Stuðningsnet Krafts

Kraftur býður upp á jafningjastuðning fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og fyrir aðstandendur. Þeir sem veita stuðninginn eru einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein eða eru aðstandendur. Þeir hafa allir lokið stuðningsfulltrúanámskeiði hjá sálfræðingi Krafts.

Neyðarsjóður Krafts

Neyðarsjóðnum er ætlað að styrkja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og lent hefur í fjárhagslegum erfiðleikum vegna hækkandi greiðsluþátttöku þess í heilbrigðiskerfinu. Neyðarsjóðurinn er eingöngu ætlaður til að standa straum af læknis- og lyfjakostnaði. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári, vor og haust.

Sálfræðiþjónusta

Kraftur býður félagsmönnum sínum uppá endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu hjá sálfræðingi Krafts og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands.

Styrkur til lyfjakaupa

Apótekarinn hefur í samstarfi við Kraft hrundið af stað átaki sem ætlað er að styðja við ungt fólk með krabbamein sem þarf á að halda með því að kosta lyf og aðrar tengdar vörur er tengjast krabbameinsgreiningu viðkomandi. Um er að ræða stofnun sérstaks sjóðs, sem Apótekarinn mun kosta að fullu. Lyfjakostnaður er umtalsverður hjá þeim sem greinst hafa með krabbamein og þrátt fyrir að Sjúkratryggingar taki þátt í lyfjakostnaði, skv. reglugerð þar um, eru fjölmörg lyf sem krabbameinsgreindir þarfnast sem ekki eru niðurgreidd. Krafts-félagar geta sótt um styrk til félgsins til kaupa á lyfjum sem tengjast sjúkdómi þeirra.

Ungliðahópurinn

Kraftur, Ljósið og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) starfrækja Ungliðahópinn sem er vettvangur fyrir fólk á aldrinum 18-29 ára sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur.
Kristján Friðriksson íþróttafræðingur er umsjónarmaður hópsins.
kristjan.fridrik@gmail.com, gsm: 866 2826.

FítonsKraftur

FítonsKraftur er endurhæfing í formi hreyfingar og útvistar fyrir ungt fólk á aldrinum 18 – 40 ára sem greinst hefur með krabbamein. Hópurinn er einnig hugsaður sem jafningjastuðningur og hvatning fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í endurhæfingu. Atli Már Sveinsson íþróttafræðingur, með sérmenntun í endurhæfingu krabbameinsgreindra, hefur umsjón með hópnum.

Útgáfustarfsemi

Kraftur hefur gefið út eftirfarandi bækur:
Lífskraftur: Bókin er afhent án endurgjald og hefur verið endurprentuð fjórum sinnum.
Dagbók Rokkstjörnu: Þrjú mögnuð ár í lífi fallins flugstjóra sem segir frá baráttu sinni við krabbamein.
Þegar foreldri fær krabbamein: Um börn og alvarleg veikindi eftir Wendy S. Harpham. Bókinni fylgir barnabókin Begga og áhyggjubollinn.
Einnig heldur Kraftur úti heimasíðu  og er félagið virkt á samfélagsmiðlunum Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat.

Erlent samstarf

Kraftur leggur ríka áherslu á samstarf við systurfélög sín í öðrum löndum.  Árlega hittast fulltrúar þeirra félaga á Norðurlöndunum sem beita sér fyrir hagsmunamálum barna og ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra.

Instagram#krafturcancer

© 2017 KRAFTUR - Skilmálar fyrir netverslun
Hannað og kóðað af Vefgerðinni