Skip to main content

Ýmiss konar stuðningur eftir andlát

Þótt vissulega sé stuðningur frá nánum aðstandendum og vinum mikilvægur getur einnig verið gott að leita til annarra sem gengið hafa í gegnum svipaða reynslu eða fagaðila.

Kraftur og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins veita endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu. Þá starfrækir Kraftur stuðningsnet i samstarfi við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þar sem veittur er jafningjastuðningur.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélags Íslands veitir stuðning í formi samtala, slökunar og hvatningar fyrir einstaklinga eða hópa. Jafningjastuðningur er síðan í boði hjá Ráðgjafarþjónustunni innan stuðningshópa í samstarfi við Nýja dögun – samtök um sorg og sorgarviðbrögð, sem veitir stuðning til syrgjenda óháð dánarorsök hins látna.

Ný dögun eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð sem hafa það að markmiði að styðja syrgjendur. Starfsemi félagsins lýtur fyrst og fremst að stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu. Samtökin eru öllum opin. Félagið hefur á að skipa reyndum aðilum sem unnið hafa að sálgæslu og geta veitt stuðning og ráðgjöf.

Ljónshjarta er samtök til stuðnings yngra fólki (20-50 ára) sem misst hefur maka og börnum þeirra. Markmið Ljónshjarta er að styðja við bakið á yngra fólki eftir makamissi og vera vettvangur þar sem fólk getur hjálpað hvert öðru í sorg. Starfið felst meðal annars í að halda úti heimasíðu með ýmiss konar fræðsluefni og efna til fyrirlestra og samverustunda þar sem fullorðnir, unglingar og yngri börn hittast og eiga góða stund saman.
Á Landspítalanum eru starfandi prestar og djáknar sem gott er að leita til og í flestum sóknum landsins taka prestar á móti syrgjendum sem leita til þeirra. Einhverjir stuðningshópar eru einnig í sóknarkirkjum og má fá upplýsingar um slíkan stuðning hjá prestum og djáknum í kirkjum á heimasíðu Þjóðkirkjunnar.

Ýmsir sálfræðingar hafa sérhæft sig í sorg og sorgarviðbrögðum og er hægt að finna þá í gengum heimasíðu Ljónshjarta.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu